Bragðskyn mótast í móðurkviði

Flestir foreldrar vilja aðeins það besta fyrir börnin sín og er þá matur engin undantekning. Færri vita að bragðskyn barna byrjar að mótast í móðurkviði.

Lykt af braðsterkum mat, t.d. hvítlauk, hefur fundist af legvatni og talið er að allt frá 26.viku meðgöngu geti fóstrið orðið fyrir áhrifum af mismunandi lykt og bragði.

Í áhugaverðri rannsókn Mennella og félaga var konum skipt af handahófi í tvo hópa. Annar hópurinn drakk eitt glas af gulrótarsafa daglega í þrjár vikur á þriðja hluta meðgöngu en hinn hópurinn glas af vatni (til viðbótar við sitt hefðbundna mataræði).

Fjórum vikum eftir að börnin voru byrjuð að fá fasta fæðu var tekið upp á myndband þegar þeim var gefinn grautur sem annars vegar hafði verið blandaður með vatni en hins vegar gulrótarsafa. Upptökurnar voru rannsakaðar af óháðum aðila (sem vissi ekki hvort börnin höfðu verið útsett fyrir gulrótarsafa í móðurkviði eða ekki). Neikvæð svipbrigði barnanna (t.d. grettur) voru skráð og voru þau marktækt færri hjá börnum kvenna sem fengu gulrótarsafa á meðgöngu.

Rétt er að taka fram að það er auðvitað ekki útilokað að kenna börnum að borða grænmeti (og aðra holla fæðu) þó móðirin hafi ekki neytt þess á meðgöngu. Kúnstin er að láta börnin smakka oft og þá læra þau smátt og smátt að meta bragðið. Rannsóknir benda þó til þess að það megi spara sér mikinn tíma við að kynna nýjar fæðutegundir fyrir barninu með því að hefja kynninguna strax í móðurkviði.

 

Heimildir

Mennella JA, Jagnow CP, Beauchamp GK. Prenatal and postnatal flavor learning by human infants. Pediatrics. 2001;107(6):E88–93.

Trout KK, Wetzel-Effinger L.Flavor learning in utero and its implications for future obesity and diabetes. Curr Diab Rep. 2012 Feb;12(1):60-6. doi: 10.1007/s11892-011-0237-4.