Færð þú nóg af mikilvægum næringarefnum?

Fyrstu niðurstöður úr rannsókninni Fæðumynstur á meðgöngu - gagnsemi skimunar á fyrsta þriðjungi meðgöngu, voru kynntar á 18. ráðstefnu um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands í janúar 2017 (ágrip E101, Læknablaðið 2017/103, fylgirit 91). Næring móður og barns (NMB) stendur að rannsókninni í samstarfi við Kvennadeild Landspítala og Rannsóknastofu í næringarfræði við HÍ og LSH með fjárhagslegum stuðningi frá Tækniþróunarsjóði. 

Konum sem mættu í ómskoðun í 11.-14.viku meðgöngu á Landspítala frá 1.október 2015 til 30.september 2016 var boðin þátttaka. Alls tóku 2117 konur þátt eða um 80% af þeim sem boðin var þátttaka. Niðurstöðurnar benda meðal annars til þess að um 12% barnshafandi kvenna í rannsókninni hefði verið í hættu á að þróa joðskort á meðgöngu

Einnig er fjallað um rannsóknina í viðtali við Þórhall Inga Halldórsson í Tímariti Háskóla Íslands 2017, en hann er leiðbeinandi doktorsnemanda verkefnisins Laufeyjar Hrólfsdóttur.
 
Á NMB er hægt að kanna hollustu fæðunnar á einfaldan hátt með því að svara næringarkönnun NMB (þeirri sömu og notuð var í ofangreindri rannsókn) og fá viðeigandi ábendingar sé hætta á að þörf fyrir mikilvæg næringarefni sé ekki mætt. Hægt er að kaupa 12 mánaða áskrift sem gefur notandanum færi á að svara næringarkönnuninni þrisvar sinnum á meðgöngunni, færa inn upplýsingar um þyngdaraukningu á meðgöngu og fleira.