Er matvendni vandamál á þínu heimili?

Spýtir barnið þitt matnum út úr sér eða hendir honum á gólfið? Væntanlega ertu ekki eina foreldrið sem lendir í slíku. 

Lítið er vitað um algengi matvendni meðal íslenskra barna, en tvö nýleg nemendaverkefni frá Háskóla Íslands benda til þess að vert sé að kanna algengi og afleiðingar matvendni nánar hérlendis. Í öðru verkefinu voru samfélagsmiðlar notaðir til að fá svör frá foreldrum barna yngri en tveggja ára um fæðuval og matvendni. Tæplega 20% svarenda töldu börnin sín vera matvönd. Algengast var að þeim þætti erfitt að fá börnin til að borða fisk, kjöt og grænmeti. Algengi matvendni hefur einnig verið metið meðal eldri barna sem sóttu þjónustu Heilsuskólans við Barnaspítala Hringsins. Í þeirri rannsókn töldu tæplega 40% foreldra barnið sitt vera matvant.

En hvað er til ráða?

Ein af þeim aðferðum sem reynst hefur vel við að fjölga fæðutegundum sem matvönd börn fást til að borða er „Food chaining“. Í stuttu máli gengur aðferðin út á að nota fæðutegund sem barnið fæst til að borða sem útgangspunkt og kynna svo fyrir barninu svipaðar fæðutegundir til dæmis með annarri áferð eða sósu. Þegar barnið er farið að sætta sig við bragðið af sósunni mætti svo kynna nýja fæðutegund með sömu sósu og fikra sig þannig áfram í átt að aukinni fjölbreytni.

 

Heimildir

Björk Guðmundsdóttir Guðrún Magnúsdóttir. Lengi býr að fyrstu gerð Matarvenjur og matvendni íslenskra 18 mánaða ungbarna – forrannsókn. Ritgerð til BS prófs í hjúkrunafræði. Hjúkrunarfræðideild Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands. Júní 2015. Leiðbeinendur Erla Kolbrún Svavarsdóttir og Ingibjörg Gunnarsdóttir.

Fishbein M, Cox S, Swenny C, Mogren C, Walbert L, Fraker C. Food chaining: a systematic approach for the treatment of children with feeding aversion. Nutr Clin Pract. 2006 Apr;21(2):182-4.

Gunnhildur Gunnarsdóttir. Matarvenjur og matvendni barna með offitu. Lokaverkefni til cand. psych gráðu í sálfræði. Sálfræðideild Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands. Júní 2016. Leiðbeinendur: Urður Njarðvík, Berglind Brynjólfsdóttir og Anna Sigríður Ólafsdóttir.