Tækniþróunarsjóður styrkir rannsóknir NMB

Næring móður og barns (NMB) mun á næstu misserum rannsaka virkni www.nmb.is í samstarfi við Landspítala, Rannsóknastofu í næringarfræði, Háskóla Íslands og Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Akureyri, með fjárhagslegum stuðningi frá Tækniþróunarsjóði.  

Rannsóknirnar sem um ræðir eru tvær. Markmið þeirrar fyrri er að kanna hvort mataræði barnshafandi kvenna, metið með stuttri næringarkönnun NMB, tengist þyngdaraukningu á meðgöngu, hættu á fylgikvillum á meðgöngu eða erfiðleikum í fæðingu. Rannsóknin er unnin í samstarfi við kvennadeild Landspítala, Rannsóknastofu í næringarfræði og Háskóla Íslands, en verkefnið er hluti af doktors- og meistaraverkefnum í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Siðanefnd Landspítala samþykkti rannsóknaáætlunina í júlí 2015, en gagnasöfnun hófst á kvennadeild Landspítala 1.okt 2015.

Áætlað er að hefja síðari rannsóknina við Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Akureyri þann 1.nóvember 2015, en Vísindasiðanefnd samþykkti rannsóknaáætlunina á fundi sínum þann 6.okt. 2015. Markmið rannsóknarinnar sem fram fer á Akureyri er að kanna hvort rafræn einstaklingsmiðuð næringarráðgjöf (sem veitt er á www.nmb.is) tengist mataræði og þyngdaraukningu kvenna á meðgöngu. 

Áætlað er að gagnaöflun í báðum rannsóknunum standi yfir í um eitt ár. Niðurstöður rannsóknanna munu liggja fyrir í byrjun árs 2017.