Mikilvæg skilaboð til foreldra um notkun jurtamjólkur

Kanadísku næringarráðgjafasamtökin hafa gefið út fréttatilkynningu í samstarfi við þarlenda barnalækna í kjölfar tilfella vannæringar sem rekja mátti til þess að börn nærðust að stórum hluta á jurtamjólk (t.d. hrísgrjóna, kókos og möndlumjólk). Samkvæmt fréttinni má rekja eitt dauðsfall til þessa. Bent er á að innihald þessara drykkja sé fyrst og fremst kolvetni, en það vanti prótein, fitu og þar með nauðsynlega orku fyrir börn í hröðum vexti.

Ákveði foreldrar að gefa börnum sínum ekki kúamjólkurafurðir (þar með talið Stoðmjólk ef barnið er yngra en 2ja ára) eða kalkbætta sojamjólk þarf að gæta þess að mikilvæg næringarefni sem annars fást úr þessum vörum komi úr öðrum fæðutegundum. Hér má nefna kalk og prótein, auk þess sem Stoðmjólkin gefur til dæmis járn, D-vítamín og joð.