Mataræði á meðgöngu og fyrstu mánuði lífsins tengist hegðunarvandamálum og líðan barnsins

Þó svo að rannsóknir á tengslum næringar og andlegrar heilsu (meðal annars þunglyndis og kvíða) séu tiltölulega stutt á veg komnar þá benda þær eindregið til þess að hollt mataræði tengist minni líkum á andlegum kvillum meðan óhófleg neysla á óhollum fæðutegundum tengist aukinni hættu.

Einnig eru sterkar vísbendingar um að óhollt mataræði á meðgöngu og slæmt fæðuval fyrstu mánuði lífsins geti aukið líkur á hegðunarvandamálum og haft áhrif á líðan barna.

Hins vegar er mörgum spurningum ósvarað í þessu samhengi, meðal annars hvort slæmt mataræði sé orsök eða afleiðing til dæmis þunglyndis og hvort aðrir þættir geti skýrt þau tengsl sem sjást í rannsóknum. 

Hin blákalda staðreynd

Það eru ennþá nokkur ár og jafnvel áratugur þar til niðurstöður fara að berast úr íhlutandi rannsóknum, þar sem þátttakendum er skipt af handahófi í annars vegar hóp sem fær leiðsögn um mataræði  sem gæti minnkað líkur á geðrænum vandamálum og hins vegar hóp sem ekki fær slíka leiðsögn. Andleg líðan og geðræn vandamál eru í kjölfarið borin saman milli hópanna. Það er ekki fyrr en að loknum slíkum rannsóknum að það telst sannað að mataræði hafi áhrif á andlega líðan.

  • Þangað til munu framleiðendur óhollra matvara þræta fyrir að búið sé að sýna fram á að vörur þeirra gætu verið skaðlegar andlegri heilsu.
  • Þangað til mun næring ekki fá aukið vægi í klínískum leiðbeiningum sem unnið er eftir í heilbrigðiskerfinu, meðal annars í mæðravernd.

En höfum við efni á að bíða?  

Eitt er ljóst að þekking á skaðlegum áhrifum af óhóflegri neyslu vörum á borð við gosdrykki, snakk og sælgæti á meðgöngu er orðin það mikil að vísindasiðanefndir myndu aldrei samþykkja að gerðar yrðu íhlutandi rannsóknir á meðgöngu þar sem hægt væri að sanna skaðlegu áhrifin. Þetta þýðir að við munum aldrei fá sannanir á því að óhófleg neysla á óhollustu á meðgöngu hafi raunveruleg áhrif á þroska og heilsu barns. 

Þannig að spurningin er – eftir hverju erum við þá að bíða?

Meðgangan er stutt tímabil sem getur haft áhrif á heilsu barnsins allt fram á fullorðins ár. Leyfum barninu að njóta vafans og hlustum á vísbendingar sem berast úr faraldsfræðilegum rannsóknum, þó svo að einhverjum spurningum sé ennþá ósvarað.

 

Heimildir

Jacka FN, Ystrom E, Brantsaeter AL, Karevold E, Roth C, Haugen M, Meltzer HM, Schjolberg S, Berk M. Maternal and early postnatal nutrition and mental health of offspring by age 5 years: a prospective cohort study. J Am Acad Child Adolesc Psychiatry. 2013 Oct;52(10):1038-47. doi: 10.1016/j.jaac.2013.07.002. Epub 2013 Aug 17.

Lai JS, Hiles S, Bisquera A, Hure AJ, McEvoy M, Attia J. A systematic review and meta-analysis of dietary patterns and depression in community-dwelling adults. Am J Clin Nutr. 2014 Jan;99(1):181-97. doi: 10.3945/ajcn.113.069880. Epub 2013 Nov 6. Review.