Hófleg neysla mikilvæg - líka á vörum sem alla jafna teljast hollar

Mjög mikil ávaxtaneysla tengist auknum líkum á meðgöngusykursýki í nýlegri rannsókn. Rétt er að taka fram að um var að ræða magn sem er tvisvar sinnum meira en ráðleggingar segja til um, en aukin hætta á meðgöngusykursýki sást við neyslu umfram 400 grömm af ávöxtum á dag (sem samsvarar um það bil fjórum meðalstórum ávöxtum á dag).

Þessar niðurstöður breyta ekki ráðleggingum um að tveir skammtar af ávöxtum á dag (200 grömm) séu æskilegir sem hluti af hollu mataræði, enda eru ávextir uppspretta mikilvægra vítamína og hollefna. 

Flestar íslenskar barnshafandi konur ná ekki ráðleggingum um neyslu 200 gramma af ávöxtum á dag (meðalneysla er um það bil 150 grömm á dag) og neysla umfram 400 grömm á dag þekkist varla. Það má því álykta að ofneysla ávaxta sé ekki áhættuþáttur fyrir meðgöngusykursýki á Íslandi í dag. Hins vegar eru þessar niðurstöður enn ein vísbendingin um það að öllu má ofgera, jafnvel þó fæðutegund teljist holl.