Villandi merkingar um sykurinnihald

Það getur verið snúið að átta sig á sykurinnihaldi matvara og mikilvægt að átta sig á því hvað liggur að baki mismunandi merkingunum. Hér verður fjallað um merkingar sem yfirleitt sjást hvergi nema á vörum sem innihalda mikinn viðbættan sykur eða teljast almennt óhollar. Um er að ræða GDA (Guideline daily amount) merkingar sem hannaðar voru af risum í matvælaiðnaði en hafa oft verið litnar hornauga af næringarfræðingum.

Forsendur GDA merkingar

Neytandi fær að vita hversu stór hlutfall af orku, fitu, mettaðri fitu, sykrum og salti einn skammtur af vörunni gefur miðað við daglegan neysluskammt. Í öllum tilfellum er miðað við 2000 hitaeininga orkuþörf. Framleiðandinn ákveður sjálfur stærðina á einum skammti, sem oft getur verið mjög lítill, til dæmis ef um er að ræða hitaeiningaríka vöru eins og kartöfluflögur þar sem einn skammtur telst vera örfáar flögur.

En hvað er svona villandi þegar kemur að sykrinum?

Merkingin setur allar sykrur (viðbættan sykur og sykrur sem gætu verið til staðar frá náttúrunnar hendi) undir sama hatt og miðar við 90 grömm á dag sem daglegan neysluskammt. Þetta er nær helmingi meira en viðmið Embættis landlæknis (og fleiri sambærilegra stofnanna) um að neysla á viðbættum sykri skuli vera að hámarki 50 grömm á dag miðað við 2000 hitaeininga fæði (samsvarar 10% af heildarorku). Rétt er að taka fram að 50 grömmin eru sett fram sem hámark og að öllum líkindum væri best að neyslan væri ennþá lægri. 

Þetta þýðir að hlutfall (%) af daglegum neysluskammti sem gefið er upp í GDA merkingunni fyrir sykur getur verið nær helmingi lægra en það sem opinberar stofnanir myndu gefa upp.

Tökum dæmi um sykraðan gosdrykk þar sem einn skammtur er gefinn upp sem 250 ml. Skammturinn gefur rétt rúmlega 100 hitaeiningar, sem jafngildir um 5% af orkuþörf dagsins (miðað við 2000 hitaeiningar). Gefið er upp á umbúðum að skammturinn innihaldi 27 grömm af sykrum (sem í þessu tilfelli er eingöngu viðbættur sykur) og að þetta magn gefi 29% af daglegum neysluskammti (sem GDA merkingin gefur sér að séu 90 grömm). Ef við miðum við hámarksneyslu á sykri miðað við almennar ráðleggingar jafngildir sykurmagnið um 54% (af 50 grömmum) úr 250 ml af sykruðum gosdrykk.

GDA virkar ekki fyrir börn 

Í merkingum fyrir GDA er alltaf miðað við 2000 hitaeininga við útreikninga. Börn undir 10 ára aldri þurfa almennt minni orku en fullorðnir, en samt er sömu viðmiðum beitt þó svo að verið sé að markaðssetja vöru til barna. Orkuþörf tveggja ára barns gæti til dæmis verið um 1000 hitaeiningar (breytilegt milli barna) og sex ára barns um 1600 hitaeiningar. 

Þá mætti endurtaka útreikningana hér að ofan sem ætti að leiða að þeirri einföldu niðurstöðu að börn ættu ekki að drekka gosdrykki (ekki frekar en fullorðið fólk).

Það er mikilvægt að láta ekki blekkjast af villandi merkingum og gæta hófs í neyslu á sykruðum vörum. Þetta má líka gera með því að velja sem oftast hreinar matvörur (fisk, mjólk, egg, grænmeti, ávexti, heilkorn, hnetur, fræ, baunir, kjöt). Þá þarf ekkert að hafa áhyggjur af því hverju var bætt við og hvernig ákveðið var að greina neytandanum frá því hvað er í vörunni.

Skráargatið er hins vegar dæmi um einfalda merkingu sem hönnuð var með heilsu fólks að leiðarljósi. Vörur sem bera merkið innihalda oftast engan viðbættan sykur (eða mjög lítið magn) og ekki er heimilt að nota merkið á vörur sem innihalda sætuefni.