Hollur matur á meðgöngu minnkar líkur á meðgöngusykursýki

Hollt mataræði tengist minni líkum á meðgöngusykursýki. Þetta eru niðurstöður rannsóknar meðal íslenskra kvenna sem birtar voru í tímaritinu European Journal of Clinical Nutrition 2016.

Fæðumynstur sem einkenndist af ríflegri neyslu af grænmeti, ávöxtum og berjum, fiski, jurtaolíum, hnetum og fræjum samhliða lítilli neyslu af gosdrykkjum, snakki og frönskum kartöflum tengdist minni líkum á meðgöngusykursýki. Niðurstöður rannsóknarinnar hafa vakið athygli bæði hér heima og erlendis. 

Það er vel þekkt að ofþyngd eykur hættu á meðgöngusykursýki. Ein áhugaverðasta niðurstaða rannsóknarinnar var hins vegar sú að líkur á meðgöngusykursýki meðal kvenna sem voru yfir kjörþyngd en borðuðu jafnframt hollan mat voru ekki meiri heldur en hjá konum sem voru í kjörþyngd fyrir þungun. Þetta bendir til þess að gott fæðuval á meðgöngu geti unnið á móti áhættunni sem felst í því að vera yfir kjörþyngd fyrir þungun.

Hér á NMB getur þú kannað hollustu fæðunnar á einfaldan hátt, en niðurstöður rannsóknarinnar úr European Journal of Clinical Nutrition voru meðal annars hafðar til hliðsjónar við hönnun næringarkönnunarinnar.

 

Texta er óheimilt að afrita á nokkurn hátt nema með leyfi rétthafa. ©NMB 2017

 

Heimild

Tryggvadottir EA, Medek H, Birgisdottir BE, Geirsson RT, Gunnarsdottir I. Association between healthy maternal dietary pattern and risk for gestational diabetes mellitus. Eur J Clin Nutr. 2016 Feb;70(2):237-42. doi: 10.1038/ejcn.2015.145.