Þyngdaraukning á meðgöngu er mikilvæg – en ekki borða fyrir tvo

Þyngdaraukning á meðgöngu er einn besti mælikvarðinn á það hvort orkuþörf móður sé mætt á meðgöngu. Þyngist kona minna heldur en ráðlagt er aukast líkur á vannæringu fóstursins. Vannæring einstaklings á fósturskeiði getur aukið líkur á heilsubresti sem jafnvel kemur ekki fram fyrr en á fullorðinsárum.

Orkuþörf eykst á meðgöngu. Talið er að barnshafandi konur þurfi að bæta um það bil 100 hitaeiningum (he) á dag við sitt fyrra mataræði á fyrsta þriðjungi meðgöngu, orkuþörf sé aukin um 300 he/dag á öðrum þriðjungi og rúmlega 500 he/dag síðustu þrjá mánuði meðgöngunnar. Nýlegar rannsóknir benda hins vegar til þess að konur sem þyngjast innan eðlilegra marka á meðgöngu bæti ekki svona mikilli orku við fyrra mataræði sitt, hugsanlega vegna þess að dregið er úr hreyfingu eftir því sem líður á meðgönguna.

Þar sem þörf fyrir flest næringarefni (vítamin og steinefni) er aukin á meðgöngu er mikilvægt að vanda fæðuval til að tryggja nægjanlegt magn næringarefna sem eru mikilvæg fyrir fósturþroska. Þetta er ekki síst mikilvægt þegar stefnt er að því að takmarka þyngdaraukningu á meðgöngu eða ef kona hreyfir sig lítið á meðgöngunni. 

Við hvetjum allar barnshafandi konur til að fylgjast með þyngdaraukningu sinni á meðgöngu og kanna hvort vísbendingar séu um skort á næringarefnum sem eru mikilvæg fyrir fósturþroska með því að ljúka næringarkönnun NMB.

Hæfileg þyngdaraukning á meðgöngunni miðað við líkamsþyngdarstuðul fyrir þungun:                  

18,5-24,9 kg/m2    12-18 kg

25-30 kg/m2            7-12 kg

≥30 kg/m2                5-9 kg *

*Konur með líkamsþyngdarstuðul ≥30 kg/m2 ættu að fylgja einstaklingsmiðuðum ráðlegginum um þyngdaraukningu sem veittar eru af heilbrigðisstarfsmönnum í Heilsugæslunni.

 

Texta er óheimilt að afrita á nokkurn hátt nema með leyfi rétthafa. ©NMB 2017

 

Heimildir

Eriksson JG, Forsen T, Tuomilehto J, Osmond C, Barker DJ. Early growth and coronary heart disease in later life: longitudinal study. BMJ (Clinical research ed). 2001;322: 949–953. doi: 10.1136/bmj.322.7292.949

Nordic Nutrition Recommendations 2012.Integrating nutrition and physical activity. Nordic Council of Ministers 2014.http://www.norden.org/en/publications/publikationer/2014-002 Jebeile H, Mijatovic J, Louie

JC, Prvan T, Brand-Miller JC. A systematic review and metaanalysis of energy intake and weight gain in pregnancy. Am J Obstet Gynecol. 2016 Apr;214(4):465-83. doi: 10.1016/j.ajog.2015.12.049. Epub 2015 Dec 29.

Phillips DI, Barker DJ, Hales CN, Hirst S, Osmond C. Thinness at birth and insulin resistance in adult life. Diabetologia. 1994; 37: 150–154. doi: 10.1007/s001250050086

Roseboom T, de Rooij S, Painter R.The Dutch famine and its long-term consequences for adult health. Early Human Development. 2006;82: 485–491. doi: 10.1016/j.earlhumdev.2006.07.001