A-vítamín

Hvað þarf ég mikið?

Ráðlagður dagsskammtur fyrir konur á meðgöngu eru 800 retinóljafngildi (RJ) á dag en 1100 RJ við brjóstagjöf.

1 retinoljafngildi (RJ) = 1 μg retinol = 12 μg β-karótín

Hvernig tryggi ég hæfilega neyslu?

Samkvæmt landskönnun á mataræði sem gerð var 2010-2011 var meðalneysla kvenna á nálægt 900 RJ á dag. Ekki er talin mikil hætta á að íslenskar konur sem borða hefðbundið íslenskt fæði fái of lítið af A-vítamíni úr fæði. Hins vegar er talin meiri hætta á að A-vítamínneysla fari upp fyrir efri mörk hættulausrar neyslu á meðgöngu, sem sett eru við 3000 RJ/dag. Mikil A-vítamínneysla (umfram 3000 RJ/dag) á meðgöngu getur haft óæskileg áhrif á fósturþroska.

  • Ekki skal taka fjölvítamín með A-vítamíni (retinóli) samhliða lýsi vegna hættu á ofneyslu A-vítamíns.
  • Ekki er mælt með því að þungaðar konur neyti lifur eða lifrarpylsu þar sem lifur inniheldur mjög mikið magn af A-vítamíni.
  • Ekki er talin hætta á ofneyslu A-vítamíns í formi β-karótín.

Heimildir

Hvað borða Íslendingar? Könnun á mataræði Íslendinga 2010-2011. Helstu niðurstöður. Hólmfríður Þorgeirsdóttir, Hrund Valgeirsdóttir, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Elva Gísladóttir, Bryndís Elfa Gunnarsdóttir, Inga Þórsdóttir, Jónína Stefánsdóttir, Laufey Steingrímsdóttir. Landlæknir, Matvælastofnun og Rannsóknastofa í næringarfræði, Reykjavík 2011.

Matur og meðganga. Fróðleikur fyrir konur á barneignaaldri. Lýðheilsustöð, Heilsugæslan og Matvælastofnun 2008.

Nordic Nutrition Recommendations 2012.Integrating nutrition and physical activity. Nordic Council of Ministers 2014.http://www.norden.org/en/publications/publikationer/2014-002

Olafsdottir AS, Skuladottir GV, Thorsdottir I, Hauksson A, Thorgeirsdottir H, Steingrimsdottir L. Relationship between high consumption of marine fatty acids in early pregnancy and hypertensive disorders in pregnancy. BJOG. 2006 Mar;113(3):301-9.

Ráðlagðir dagskammtar (RDS) af ýmsum vítamínum 2013. Embætti landlæknis.