Járn

Járnskortur er einn algengasti næringarskortur í heimi og algengasta skýring blóðleysis á meðgöngu. Mjög vel er fylgst með blóðhag íslenskra kvenna í mæðravernd og gripið inn í ef kona reynist blóðlítil á meðgöngu.

Hvað þarf ég mikið?

Ef nýtanleiki járns er um 15% (eins og hann er úr venjulegu blönduðu fæði) ættu 15 mg á dag að fullnægja járnþörf flestra þungaðra kvenna. Sumar konur þurfa þó að taka járn sem bætiefni, sérstaklega á öðrum og þriðja þriðjungi meðgöngu.

Hvernig tryggi ég næga neyslu?

Kjöt, blóðmör, baunir, þurrkaðir ávextir, dökkgrænt grænmeti, járnbætt morgunkorn, gróft korn, fræ og gróft brauð eru allt góðir járngjafar og þar af leiðandi mikilvægur hluti af hollu mataræði á meðgöngu. Hafi járnbirgðir verið lágar fyrir þungun er líklegt að kona geti ekki fullnægt aukinni járnþörf á meðgöngu með fæði og þurfi járn sem bætiefni þegar líður á meðgönguna.

Mikilvægi á meðgöngu

Eitt af einkennum járnskorts er þreyta og aukin tíðni sýkinga. Mikilvægt er að tryggja góðan járnhag þungaðra kvenna þar sem þær þurfa á allri sinni orku að halda á meðgöngunni og á mánuðunum eftir að barnið kemur í heiminn. Vel er fylgst með járnhag íslenskra kvenna í mæðravernd og gripið inn í reynist kona blóðlítil á meðgöngu.


Heimildir

Domellöf M, Thorsdottir I, Thorstensen K. Health effects of different dietary iron intakes: a systematic literature review for the 5th Nordic Nutrition Recommendations. Food Nutr Res. 2013 Jul 12;57. doi: 10.3402/fnr.v57i0.21667. 

Matur og meðganga. Fróðleikur fyrir konur á barneignaaldri. Lýðheilsustöð, Heilsugæslan og Matvælastofnun 2008.

Nordic Nutrition Recommendations 2012.Integrating nutrition and physical activity. Nordic Council of Ministers 2014.http://www.norden.org/en/publications/publikationer/2014-002

Ráðlagðir dagskammtar (RDS) af ýmsum vítamínum 2013. Embætti landlæknis.