Sætuefni á meðgöngu

Árið 2013 birti matvælaeftirlitsstofnun Evrópu (EFSA) álit vegna neyslu á sætuefnum. Niðurstaða áhættumatsins var að aspartam og niðurbrotsefni þess eru örugg í því magni sem fólk neytir þess með fæðu og ásættanleg dagleg inntaka áfram skilgreind sem 40mg á hvert kíló líkamsþyngdar, líka við þungun. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að álitið byggir á mjög fáum rannsóknum og ef til vill skynsamlegast að leyfa fóstrinu að njóta vafans.

Samkvæmt álitinu segir EFSA að að aspartam skaði ekki heila né taugakerfi og hafi ekki áhrif á hegðun eða atferli barna eða fullorðinna og að aspartam hafi ekki neikvæð áhrif á fóstur í því magni sem þess er neytt. Túlkun fjölmiðla á áliti EFSA var á þá leið að efnið væri fullkomlega öruggt á meðgöngu. Mikilvægt er að neytendur átti sig á því að þekking á þessu sviði er mjög takmörkuð og túlkun fjölmiðla gekk of langt miðað við álit EFSA. 

Niðurstöður tveggja stórra ferilrannsókna sem skoðað hafa áhrif af neyslu matvara með sætuefnum á meðgöngu á útkomu meðgöngu eða heilsu barnsins benda til þess að við ættum að leyfa fóstrinu að njóta vafans. Neysla drykkja með sætuefnum á meðgöngu hefur verið tengd við auknar líkur á fyrirburafæðingum bæði meðal danskra og norskra kvenna. Nýlega sáust tengsl milli mikillar neyslu gosdrykkja með sætuefnum á meðgöngu og ofnæmis og astma meðal barnanna.

Mjög auðvelt er að gagnrýna ferilrannsóknir á borð við þær sem hér hefur verið vitnað í, þar sem ómögulegt er að leiðrétta fyrir öllum mögulegum truflandi þáttum sem geta haft áhrif á niðurstöðuna. Hins vegar gefa niðurstöður rannsóknanna ákveðna vísbendingu. Ólíklegt verður að teljast að leyfi fengist hjá vísindasiðanefndum til að framkvæma íhlutandi rannsókn meðal þungaðra kvenna. Íhlutandi rannsókn er hins vegar eina rannsóknasniðið sem gæti svarað með óyggjandi hætti hvort neysla á sætuefnum gætu haft slæm áhrif á heilsu fóstursins. Hver hefði áhuga á að taka þátt í slíkri rannsókn, þar sem þú myndir ef til vill stofna heilsu fóstursins í hættu í þágu vísindanna?

Þar sem neysla gosdrykkja (hvort sem um er að ræða sykraða eða drykki með sætuefnum) er ekki nauðsynlegur hluti af mataræði og veitir engin lífsnauðsynleg næringarefni þá er ef til vill skynsamlegast að leyfa fóstrinu að njóta vafans. Sé gosdrykkja neytt er mikilvægt að gæta hófs.

 

Heimildir

Scientific Opinion on the re-evaluation of aspartame (E 951) as a food additive. EFSA Journal 2013;11(12):3496 [263 pp.]. doi:10.2903/j.efsa.2013.3496  

Maslova E, Strøm M, Olsen SF, Halldorsson TI.Consumption of artificially-sweetened soft drinks in pregnancy and risk of child asthma and allergic rhinitis. PLoS One. 2013;8(2):e57261. doi: 10.1371/journal.pone.0057261. Epub 2013 Feb 27.

Halldorsson TI1, Strøm M, Petersen SB, Olsen SF.Intake of artificially sweetened soft drinks and risk of preterm delivery: a prospective cohort study in 59,334 Danish pregnant women. Am J Clin Nutr. 2010 Sep;92(3):626-33. doi: 10.3945/ajcn.2009.28968. Epub 2010 Jun 30.

Englund-Ögge L, Brantsæter AL, Haugen M, Sengpiel V, Khatibi A, Myhre R, Myking S, Meltzer HM, Kacerovsky M, Nilsen RM, Jacobsson B. Association between intake of artificially sweetened and sugar-sweetened beverages and preterm delivery: a large prospective cohort study. Am J Clin Nutr. 2012 Sep;96(3):552-9. doi: 10.3945/ajcn.111.031567. Epub 2012 Aug 1.