Mikil próteinneysla ungbarna ekki æskileg

Í ljósi mikillar umræðu um prótein undanfarin misseri á Íslandi er mikilvægt að benda á að mikil próteinneysla ungra barna í hröðum vexti hefur verið tengd við auknar líkur á ofþyngd síðar í barnæsku.

Þótt ótrúlegt megi virðast þá inniheldur móðurmjólkin einungis um 5% af heildarorku frá próteinum. Til samanburðar má nefna að venjulegt íslenskt mataræði gefur um 18% af heildarorku frá próteinum. Mælt er með að konur hafi börnin sín á brjósti eins lengi og móðir og barn treysta sér til og mælt er með því að móðurmjólk sé hluti af fæði barnsins að minnsta kosti fyrsta aldursárið, jafnvel lengur. Eitt af því sem hætt er við að gerist þegar barn hættir á brjósti eða brjóstagjöf minnkar verulega er að fæðið verði mjög próteinríkt. 

Mikil próteinneysla ungbarna hefur í rannsóknum verið tengd við hraðan vöxt og auknar líkur á ofþyngd meðal barna. Þetta samband hefur sést í íslenskum rannsóknum sem gerðar hafa verið á meðal ungbarna sem fylgt var eftir til sex ára aldurs. 

Hátt próteinmagn í fæði íslenskra ungbarna sést fyrst og fremst hjá börnum þar sem ekki er fylgt leiðbeiningum ung- og smábarnaverndar. Þar er mælt með takmörkun á venjulegri kúamjólk og öðrum mjólkurvörum (öðrum en Stoðmjólk) framyfir fyrsta aldursárið, nema í örlitlu magni t.d. út á grauta. Ekki skal nota venjulega óbreytta kúamjólk til drykkjar fyrsta árið. Miklvægt er að börn yngri en 12 mánaða fái ekki skyr sem er mjög próteinrík fæða. Nánari upplýsingar má finna í kaflanum "Af hverju Stoðmjólk?" undir flipanum FRÓÐLEIKUR.

Það má þó ekki skilja þennan pistil þannig að mjólk og önnur próteinrík fæða sé slæm. Síður en svo, börnin þurfa prótein, en í hæfilegu magni. Stoðmjólkin auk hæfilegra skammta af öðrum próteingjöfum, svo sem kjöti og fiski, eru mikilvægur hluti af næringu Íslenskra ungbarna eftir að brjóstagjöf minnkar eða lýkur. 

 

Heimildir

Thorisdottir B, Gunnarsdottir I, Palsson GI, Halldorsson TI, Thorsdottir I. Animal protein intake at 12 months is associated with growth factors at the age of six. Acta Paediatr. 2014 Jan 28. doi: 10.1111/apa.12576. [Epub ahead of print]

Greiner T, Gunnarsdottir I. Feeding infants right--status and future directions. Public Health Nutr. 2013 Oct;16(10):1721-2. doi: 10.1017/S1368980013002358. 

Thorisdottir B, Gunnarsdottir I, Thorisdottir AV, Palsson GI, Halldorsson TI, Thorsdottir I. Nutrient intake in infancy and body mass index at six years in two population-based cohorts recruited before and after revision of infant dietary recommendations. Ann Nutr Metab. 2013;63(1-2):145-51. doi: 10.1159/000354431. Epub 2013 Aug 24.

Hörnell A, Lagström H, Lande B, Thorsdottir I. Protein intake from 0 to 18 years of age and its relation to health: a systematic literature review for the 5th Nordic Nutrition Recommendations. Food Nutr Res. 2013 May 23;57. doi: 10.3402/fnr.v57i0.21083. 

Gunnarsdottir I, Thorsdottir I. Relationship between growth and feeding in infancy and body mass index at the age of 6 years. Int J Obes Relat Metab Disord. 2003 Dec;27(12):1523-7.