Næring snemma á lífsleiðinni

Á síðastliðnum 25-30 árum hefur þekking á gildi næringar í móðurkviði aukist til muna. Kenningar þess efnis að aðbúnaður í móðurkviði geti haft áhrif á heilsu barnsins allt fram á fullorðinsár hafa verið studdar með fjölda rannsókna, bæði á mönnum og dýrum. David Barker setti fyrstur manna fram kenningar um prógrammeringu "fetal programming" á árunum kringum 1990, sem oft voru kallaðar Barker kenningarnar. Barker lést á árið 2013, en hann skilur eftir sig fjölda rannsókna og rannsóknaráhuga vísindamanna um allan heim, meðal annars á Íslandi.

Rannsóknastofa í næringarfræði hefur undanfarin 15 ár rannsakað tengsl fæðingarstærðar og vaxtar í barnæsku á heilsu á fullorðinsárum í samstarfi við Hjartavernd. Niðurstöðurnar benda til þess að lág fæðingarþyngd tengist auknum líkum á ýmsum sjúkdómum síðar á ævinni. Sambandið er sterkast meðal þeirra sem fæðast litlir eða léttir en verða of þungir sem fullorðnir einstaklingar. Lykilatriði hér er að þeir sem fæðast lítlir og léttir (þó eftir eðlilega meðgöngulengd) ættu að forðast að verða of þungir eða of feitir þar sem þeir virðast viðkvæmari fyrir því heldur en börn sem fæðast þyngri/stærri. 

Það er margt sem við ekki skiljum ennþá í tengslum við kenningar Barkers, en þó er vitað að næg þyngdaraukning á meðgöngu getur verið góður mælikvarði á að fóstrið dafni eðlilega. Þar af leiðandi er talið mjög mikilvægt að konur þyngist á meðgöngu. 

Síðastliðna áratugi hafa þó ef til vill skapast meiri vandamál í tengslum við of mikla heldur en of litla þyngdaraukningu mæðra á meðgöngu. Með aukinni tíðni offitu og þar með aukinni tíðni meðgöngusykursýki hafa skapast vandamál er tengjast of hárri fæðingarþyngd með tilheyrandi fylgikvillum.

Lykillinn er hæfileg þyngdaraukning. Íslenskum konum í kjörþyngd fyrir þungun (með líkamsþyngdarstuðul 18,5-24,9 kg/m2) er ráðlagt að þyngjast um 12-18 kg á meðgöngunni. Of þungum konum  er ráðlagt að þyngjast 7-12 kg. Of feitum konum (með líkamsþyngdarstuðul ≥30 kg/m2er bent á að fylgja einstaklingsmiðuðum ráðlegginum um þyngdaraukningu sem veittar eru af heilbrigðisstarfsmönnum í Heilsugæslunni.

 

Heimildir

Phillips DI, Barker DJ, Hales CN, Hirst S, Osmond C. Thinness at birth and insulin resistance in adult life. Diabetologia. 1994; 37: 150–154. doi: 10.1007/s001250050086

Eriksson JG, Forsen T, Tuomilehto J, Osmond C, Barker DJ. Early growth and coronary heart disease in later life: longitudinal study. BMJ (Clinical research ed). 2001;322: 949–953. doi: 10.1136/bmj.322.7292.949

Birgisdottir BE, Gunnarsdottir I, Thorsdottir I, Gudnason V, Benediktsson R. Size at birth and glucose intolerance in a relatively genetically homogeneous, high-birth weight population. American Journal of Clinical Nutrition. 2002;76: 399–403. doi: 10.1080/03585522.1998.10414677

Gunnarsdottir I, Birgisdottir BE, Benediktsson R, Gudnason V, Thorsdottir I. Relationship between size at birth and hypertension in a genetically homogeneous population of high birth weight. Journal of Hypertension. 2002;20: 623–628. doi: 10.1097/00004872-200204000-00018

Gunnarsdottir I, Birgisdottir BE, Thorsdottir I, Gudnason V, Benediktsson R. Size at birth and coronary artery disease in a population with high birth weight. American Journal of Clinical Nutrition. 2002; 76: 1290–1294.

Gunnarsdottir I, Birgisdottir BE, Benediktsson R, Gudnason V, Thorsdottir I. Association between size at birth, truncal fat and obesity in adult life and its contribution to blood pressure and coronary heart disease; study in a high birth weight population. European Journal of Clinical Nutrition. 2004;58: 812–818. doi: 10.1038/sj.ejcn.1601881

Roseboom T, de Rooij S, Painter R.The Dutch famine and its long-term consequences for adult health. Early Human Development. 2006;82: 485–491. doi: 10.1016/j.earlhumdev.2006.07.001

Imai CM1, Halldorsson TI, Gunnarsdottir I, Gudnason V, Aspelund T, Jonsson G, Birgisdottir BE, Thorsdottir I. Effect of birth year on birth weight and obesity in adulthood: comparison between subjects born prior to and during the great depression in Iceland. PLoS One. 2012;7(9):e44551. doi: 10.1371/journal.pone.0044551. Epub 2012 Sep 5.