Frumskógur fæðubótarefna

Það er vel þekkt að fæðubótarefni koma ekki í staðinn fyrir hollt og gott mataræði. Þau geta hins vegar verið mjög mikilvæg undir ákveðnum kringumstæðum. Á sama tíma getur verið skaðlegt að bæta þeim ofan á mataræði sem núþegar veitir nægjanlegt magn næringarefna.

En hvað á að velja?

Svarið við þessari spurningu er alls ekki einfalt, því til þess að fæðubótarefni geri gagn þá þarf neysla efnanna sem tekin eru inn að vera af skornum skammti í fæði viðkomandi. Öllum barnshafandi konum er hins vegar ráðlagt að taka fólat fyrstu 12 vikur meðgöngu og D-vítamín alla meðgönguna.

Nýleg rannsókn á mataræði barnshafandi kvenna á Íslandi benti til þess að algengast er að fæðið veiti ekki nægjanlegt magn af D-vítamíni, fólati, joði og fitusýrunni DHA (löng omega-3 fitusýra). Um það bil fjórðungur barnashafandi kvenna virtist ekki fá nægjanlegt magn þessara efna úr fæðinu.

Skynsamlegast er að taka ákvörðun um notkun fæðubótarefna út frá því hvernig mataræði þitt lítur út í dag. Við hvetjum því barnshafandi konur til að ljúka næringarkönnun NMB. Æskilegast er að breyta mataræðinu í átt að markmiðum NMB, en ef það er af einhverjum ástæðum ekki hægt (t.d. vegna ofnæmis eða óþols) þá er nauðsynlegt að íhuga notkun fæðubótarefna á meðgöngunni.

Í þeim tilfellum sem ákvörðun er tekin um notkun fæðubótarefna á meðgöngu er mikilvægt að lesa vel utan á umbúðir. Úrval fæðubótarefna er gríðarlega mikið og innihald þeirra mjög mismunandi. Fjölvítamín inniheldur til dæmis ekki alltaf sömu efni í sama magni og það sama má segja um styrk D-vítamíns og omega-3 fitusýra.

Barnshafandi kona ætti aldrei að taka skammta sem eru umfram ráðlagða dagsskammta nema samkvæmt læknisráði (enda hafi þá næringarefnaskortur verið staðfestur með blóðprufu).

Nánari upplýsingar um mikilvægi einstakra næringarefna á meðgöngu má finna undir stikunni FRÓÐLEIKUR.

 

Heimildir

Ingibjörg Gunnarsdóttir, Ellen Alma Tryggvadóttir, Bryndís Eva Birgisdóttir, Þórhallur Ingi Halldórsson, Helga Medek, Reynir Tómas Geirsson. Fæðuval og næring kvenna á meðgöngu með tilliti til líkamsþyngdar. Læknablaðið 2016; 9: 378-384. doi: 10.17992/lbl.2016.09.95

Matur og meðganga. Fróðleikur fyrir konur á barneignaaldri. Lýðheilsustöð, Heilsugæslan og Matvælastofnun 2008.

Nordic Nutrition Recommendations 2012.Integrating nutrition and physical activity. Nordic Council of Ministers 2014.http://www.norden.org/en/publications/publikationer/2014-002.

Ráðlagðir dagskammtar (RDS) af ýmsum vítamínum 2013. Embætti landlæknis.