Joð

Helstu uppsprettur joðs í fæði á Íslandi eru annars vegar mjólk og mjólkurvörur og hins vegar fiskur (fyrst og fremst magur fiskur). Sé neysla þessarra fæðutegunda (fisks og mjólkurvara) ekki í samræmi við ráðleggingar, ekki notað joðbætt salt (almennt ekki notað á Íslandi) eða tekin inn bætiefni sem innihalda joð þá er hætta á að þörf fyrir joð sé ekki mætt á meðgöngu. Góður joðhagur móður á meðgöngu er mikilvægur fyrir fósturþroska.

Hvað þarf ég mikið?

Ráðlagður dagskammtur fyrir þungaðar konur eru 170 micrógrömm (µg) á dag (200 µg/dag fyrir konur með barn á brjósti).

Hvernig tryggi ég næga neyslu?

  • Barnshafandi konur sem nota tvo skammta af mjólk eða mjólkurvörum daglega og borða jafnframt magran fisk (t.d. ýsu eða þorsk) tvisvar sinnum í viku fá mjög líklega nægjanlegt magn af joði úr fæði. 
  • Konur sem af einhverjum ástæðum nota aldrei eða mjög sjaldan mjólkurvörur og borða ekki fisk vikulega (t.d. vegna ofnæmis eða óþols) ættu að hafa samráð við næringarfræðing áður en notkun bætiefna með joði hefst. 
  • Joðbætt salt, sem er helsti joðgjafi margra þjóða sem ekki eiga joðríka mjólk og borða lítinn fisk, er ekki algengt á íslenskum markaði og almennt ekki notað í matvælaframleiðslu á Íslandi.

Mikilvægt er að leita ráða hjá næringarfræðingi við val á joðbætiefnum þar sem háir skammtar af joði geta verið skaðlegir. Hafi joðneyslan verið mjög lítil í langan tíma fyrir þungun þá þarf að fara sérstaklega varlega í bætiefnanotkun.

Þungaðar konur ættu alls ekki að nota þara eða þaratöflur sem joðgjafa þar sem hætt er við því að slík bætiefni innihaldi efni sem geta verið skaðleg fyrir fóstrið.

Mikilvægi á meðgöngu

Joðhagur mæðra á meðgöngu er mikilvægur fyrir fósturþroska og þroska barnsins eftir fæðingu þess. Venjulegt íslenskt fæði er almennt ríkt af mjólkurvörum og fiski og þar af leiðandi óþarfi fyrir flestar íslenskar konur að hafa áhyggjur af joðskorti.

 

Heimildir

Abel MH, Caspersen IH, Meltzer HM, Haugen M, Brandlistuen R, Aase H, Alexander J, Torheim LE, Brantsæter AL. Suboptimal maternal iodine intake is associated with impaired child neurodevelopment at 3 years of age in the Norwegian Mother and child cohort study. J Nutr doi:10.3945/jn.117.250456. 

Brantsæter AL, Abel MH, Haugen M, Meltzer HM. Risk of suboptimal iodine intake in pregnant Norwegian women. Nutrients. 2013 Feb 6;5(2):424-40. doi: 10.3390/nu5020424.

Gunnarsdottir I, Dahl L. Iodine intake in human nutrition: a systematic literature review.Food Nutr Res. 2012;56. doi: 10.3402/fnr.v56i0.19731. Epub 2012 Oct 9.

Gunnarsdottir I, Gustavsdottir AG, Steingrimsdottir L, Maage A, Johannesson AJ, Thorsdottir I. Iodine status of pregnant women in a population changing from high to lower fish and milk consumption. Public Health Nutr. 2013 Feb;16(2):325-9. doi: 10.1017/S1368980012001358. Epub 2012 May 21.

Nyström HF, Brantsæter AL, Erlund I, Gunnarsdottir I, Hulthén L, Laurberg P, Mattisson I, Rasmussen LB, Virtanen S, Meltzer HM. Iodine status in the Nordic countries - past and present. Food Nutr Res. 2016 Jun 8;60:31969. doi: 10.3402/fnr.v60.31969. eCollection 2016. 

Völzke H, Caron P, Dahl L, de Castro JJ, Erlund I, Gaberšček S, Gunnarsdottir I, Hubalewska-Dydejczyk A, Ittermann T, Ivanova L, Karanfilski B, Khattak RM, Kusić Z, Laurberg P, Lazarus JH, Markou KB, Moreno-Reyes R, Nagy EV, Peeters RP, Pīrāgs V, Podoba J, Rayman MP, Rochau U, Siebert U, Smyth PP, Thuesen BH, Troen A, Vila L, Vitti P, Zamrazil V, Zimmermann MB. Ensuring Effective Prevention of Iodine Deficiency Disorders. Thyroid. 2016 Feb;26(2):189-96. doi: 10.1089/thy.2015.0543. Epub 2016 Jan 25.