Er barn á fyrsta aldursári viðkvæmara heldur en fóstur?

Hvers vegna eru ráðleggingar um mataræði barnshafandi kvenna ekki eins strangar og fyrir ungbörn? Foreldrum myndi seint detta í hug að gefa barni yngra en 12 mánaða gosdrykki og snakk þar sem þessar vörur þykja of sætar og saltar fyrir litla kroppa.

Í dag vitum við að fóstur verður fyrir áhrifum af fæðuvali móður á meðgöngu, en þessi þekking virðist ekki hafa skilað sér nægjanlega vel miðað við rannsóknir á mataræði barnshafandi kvenna á Íslandi. Barnshafandi konur á Íslandi fylgja þó almennt mjög vel þeim viðvörunum sem gefnar eru í meðgönguvernd, m.a. um að forðast hráar afurðir vegna sýkingahættu og ofneyslu A vítamíns.

NMB telur að þekking sé nú orðin nægjanlega mikil til að forsendur séu fyrir því að vara við neyslu á gosdrykkjum (bæði sykruðum og með sætuefnum), snakki og sambærilegum vörum á meðgöngu. Hvers vegna ætti barn að þola innihaldsefni þessara fæðutegunda betur á fósturskeiði heldur en á fyrsta aldursári?