Fyrstu 1000 dagarnir

Næring á fósturskeiði og fyrstu 24 mánuði ævinnar getur haft áhrif á vöxt og þroska barna. Góð næring móður og barns þessa mikilvægu 1000 daga (9 mánaða meðgangan + 365 dagar fyrsta árið + 365 dagar annað árið) sem sumir vilja kalla glugga tækifæra, getur þannig haft áhrif á heilsu einstaklingsins til æviloka. Upphafsmaður kenninga um að aðbúnaður í móðurkviði geti haft áhrif á heilsu barnsins síðar á ævinni var David Barker prófessor sem lést 2013. Þessar kenningar eru ýmist kallaðar „Barker Hypothesis“,  „Early Origins Hypothesis“ eða "Developmental Origins of Health and Disease" og hafa verið rannsakaðar síðastliðin 25-30 ár. Rannsóknir allt til dagsins í dag styðja kenningar Barkers og hafa þær aukið skilning okkar á mikilvægi góðrar næringar, bæði móður og barns. 

Það er einfalt að velja hollan mat 

Meðal megin markmiða NMB er að sýna fram á hversu auðvelt það er að velja hollan mat. Mikilvægt er að koma í veg fyrir skort á næringarefnum sem gegna lykilhlutverki við fósturþroska og þroska barna. Hver máltíð er nýtt tækifæri til að veita líkamanum mikilvæga næringu.  Á NMB getur þú svarað spurningum um fæðuval þitt og fengið upplýsingar ef vísbendingar eru um of litla neyslu af næringarefnum og um heildarhollustu fæðunnar.

Traustur og óháður vefur 

Frá upphafi hefur það verið markmið okkar að rekstur NMB yrði óháður auglýsingum frá framleiðendum matvæla og fæðubótarefna. www.nmb.is er traustur og óháður vefur og eru þær upplýsingar sem birtast á síðunni studdar af vísindalegum niðurstöðum, miðað við stöðu þekkingar í dag, en án markaðsáhrifa.