næring móður og barns

Fyrirtækið Næring móður og barns ehf. var stofnað sumarið 2013 og vefurinn www.nmb.is opnaður í júlí 2014.

Eigendur eru hjónin dr. Ingibjörg Gunnarsdóttir prófessor í næringarfræði og Ólafur Heimir Guðmundsson viðskiptafræðingur. Saman eiga þau þrjá drengi sem fæddir eru 2000, 2002 og 2004.

Í starfi sínu sem prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands hefur Ingibjörg birt ásamt samstarfsfólki á sjötta tug vísindagreina í erlendum og innlendum vísindatímaritum. Ingibjörg hefur einnig verið ötul við að koma nýrri þekkingu á sviði næringarfræði til almennings, meðal annars með námskeiðum, fyrirlestrum og blaðagreinum. Ingibjörg varði doktorsritgerð sína árið 2003 en ritgerðin byggði á sex vísindagreinum um næringu og vöxt snemma á lífsleiðinni og heilsu bæði í barnæsku og síðar á lífsleiðinni. Allar götur síðan hefur efnið verið henni hugleikið og hefur hún komið að fjölda rannsókna er tengjast næringu og heilsu barnshafandi kvenna, ungbarna og barna.

Verkefnið hlaut styrk úr sjóðnum Atvinnumál kvenna og Nýsköpunarsjóði námsmanna árið 2013. Vefurinn var hannaður og forritaður í samstarfi við Advania. 

Vorið 2015 hlaut fyrirtækið frumherjastyrk úr Tækniþróunarsjóði Rannís til rannsókna sem tengjast næringarkönnun NMB og notkunar kerfisins á meðgöngu. Rannsóknirnar hafa einnig hlotið stuðning úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og Vísindasjóði Landspítala til samstarfsaðila Næring móður og barns.

Haustið 2017 hlaut fyrirtækið tilnefningu til Fjöreggs Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands og þriðju verðlaun í samkeppninni Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands 2017.

Næring móður og barns hefur einnig tvívegis fengið styrk úr Lýðheilsusjóði.